Norrænar fyrirmyndir

Íslenskt staðfest er unnið eftir fordæmum Finna, Norðmanna og Svía sem hafa öll eigin matvælamerki til að staðfesta uppruna vara. Finnarnir réðu á vaðið árið 1993 með merkinu Gott från Finland en 16 árum síðar kynntu Norðmenn sitt merki, Nyt Norge og Svíar fylgdu í kjölfarið með Från Sverige árið 2016. Hjá Svíunum er merkið þríþætt þar sem hægt er að merkja með Från Sverige en einnig eru sérstakar merkingar fyrir kjöt- og mjólkurvörur.

Norrænu merkin þrjú vinna öll í grunninn eftir sama regluverki, eiga með sér gott samstarf og deila upplýsingum til að styrkja rekstur og þjónustu merkjanna. Verkefnahópur Íslenskt staðfest hefur notið góðs af vinnu frændþjóða okkar og fengið víðtækar upplýsingar hjá forsvarsmönnum merkjanna á Norðurlöndunum.

Vitund merkjanna eykst ár frá ári

Í Noregi eru um fjögur þúsund norskar vörur (matvæli og drykkir), merktar með merkinu Nyt Norge sem er í umsjón sjálfstæðu stofnunarinnar Matmerk sem komið var á fót af landbúnaðarráðuneytinu þar í landi árið 2007. Merkið staðfestir að hráefnið er norskt ásamt því að bóndinn hafi fylgt settum reglum en einnig að matvælin séu unnin og þeim pakkað í Noregi 

Finnska merkið Gott från Finland er unnið í samstarfi við aðila innan finnska matvælaiðnaðarins þar sem öll keðjan er með í samstarfinu, bændur, fyrirtæki, matvælafyrirtæki, smásalar og neytendur. Merkið hefur fest sig rækilega í sessi en um 90% finnsku þjóðarinnar þekkja merkið. Í Finnlandi er merkið notað af 350 framleiðendum og er það sjáanlegt á yfir 12 þúsund vörunúmerum.

Sænska upprunamerkið, sem samanstendur af þremur valmöguleikum var komið á fót í samstarfi samtaka framleiðenda (Livsmedelsforetagen), verslunarinnar (Svensk Dagligvaruhandel) og samtaka bænda. Merkið auðveldar neytendum að kaupa vörur frá sænskum bændum. Um 200 fyrirtæki nota merkið á rúmlega 11.000 vörunúmer og hefur vitund neytenda á merkinu vaxið ár frá ári.