Mjólkusamsalan í samstarf við Íslenskt staðfest
Mjólkursamsalan (MS) og Íslenskt staðfest hafa undirritað samning sem tryggir að vörur MS verði upprunavottaðar samkvæmt stöðlum Íslenskt staðfest. Fyrstu vörurnar sem bera merkið munu koma á markað í upphafi árs 2026.
Merkið Íslenskt staðfest er vottunarkerfi sem staðfestir að matvæli séu bæði framleidd á Íslandi og úr íslensku hráefni. Með því að innleiða merkið á vörur sínar vill MS undirstrika mikilvægi íslensks landbúnaðar og hráefnis, og styrkja traust neytenda á íslenskum mjólkurvörum.
„Við hjá MS erum stolt af því að geta sett merkið Íslenskt staðfest á vörurnar okkar. Þetta er mikilvægt skref í að sýna fram á það sem við höfum alltaf lagt áherslu á, að mjólkurvörurnar okkar eru unnar úr hreinni, íslenskri mjólk frá íslenskum bændum,“ segir Aðalsteinn H. Magnússon, sölu og markaðsstjóri MS.
„Samstarfið við MS er stór áfangi fyrir Íslenskt staðfest. MS er leiðandi framleiðandi í íslenskri matvælaframleiðslu og með því að taka upp merkið styrkir fyrirtækið bæði stöðu íslenskra hráefna og traust neytenda til íslenskrar framleiðslu,“ segir Stella Björk Helgadóttir, framkvæmdastjóri Íslenskt staðfest.
Merkið Íslenskt staðfest er þróað í samstarfi við Bændasamtök Íslands og hefur það markmið að efla vitund neytenda um uppruna íslenskra matvæla. Vottunin er veitt þeim framleiðendum sem uppfylla skýrar kröfur um íslenskan uppruna og rekjanleika.
