Norðmenn, með upprunamerkið Nyt Norge, og Svíar með Från Sverige, framkvæma reglulega kannanir hjá neytendum á viðhorfi þeirra til uppruna matvöru, mikilvægi merkinga matvara og þekkingu ásamt trausti á upprunamerkjum landanna. Áhugavert er að sjá úr þessum könnunum hversu mikið traust neytendur hafa til merkjanna og mikilvægi fyrir þá að geta haft öruggt og upplýst val í verslunum með slíkum merkingum á matvælum.
Samkvæmt könnun sem Nyt Norge framkvæmdi árið 2021 á meðal neytenda á aldrinum 20-65 ára kom í ljós að tveir af þremur svarenda velja norsk matvæli sé þess kostur. Helstu ástæður þess vals var að sögn svarenda þær að matvælin væru örugg, þau hefðu ferðast stutta leið á markað, sjálfbærni og til að styðja bændur. Þegar val á milli þess að velja norsk matvæli eða innfluttar vörur var skýrt að svarendur vildu styðja norska bændur, innlend matvæli væru öruggari og að passa upp á norsk störf á vinnumarkaði.
Mikið traust til Nyt Norge- merkisins
Einnig voru svarendur spurðir að þekkingu þeirra á norska upprunamerkinu Nyt Norge en árið 2011 sögðust 78% svarenda kannast við það þegar því var sýnd mynd af merkinu en tíu árum síðar þekktu 93% svarenda merkið. Var það hærra en þekking á skráargatinu sem mældist í 25% árið 2021 hjá svarendum. Samkvæmt könnuninni báru svarendur jafnframt mjög mikið traust til Nyt Norge-merkisins og sögðu það auka kaupvilja þeirra á norskum matvælum.
Styðja við innlenda matvælaframleiðslu
Líkt og Norðmenn framkvæmdu Svíar sambærilega viðhorfskönnun til uppruna matvæla árið 2021 og komu þar svipaðar niðurstöður í ljós. Rúmlega 90% svarenda voru jákvæðir gagnvart sænskum mat og drykkjarvörm og rúmlega 70% svarenda fannst mikilvægt að sjá upprunaland hráefna og unninna matvara. Hátt í 70% svarenda fannst að skýr upprunamerking hjálpi við innkaup á mat og drykkjarvörum og 55% svarenda sögðust alltaf leita eftir sænskum uppruna þegar þau versla.
Um 80% svarenda í sænsku könnuninni þekktu til upprunamerkisins Från Sverige, höfðu traust til þess og töldu það mikilvægt að merkið væri að finna á matvælum. Líkt og í Noregi töldu svarendur í Svíþjóð mikilvægt að velja sænska vöru umfram innflutta til að styðja við sænska matvælaframleiðslu, hafa vissu fyrir því að varan hefði ferðast stutta vegalengd á markað og vera öruggt um að velja sænskar matvörur. Traust til Från Sverige upprunamerkisins vex stöðugt en árið 2016 höfðu 41% svarenda mikið traust til merkisins og fimm árum hafði sú talað tvöfaldast þegar rúmlega 83% svarenda sögðust treysta merkinu.