Betri merkingar matvæla

Ákall um betri merkingar matvæla

Árið 2020 kom út skýrsla samráðshóps, sem skipaður var af þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um betri merkingar matvæla. Markmið með vinnunni var að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif matvæla. Jafnframt var hlutverk hópsins að finna leiðir til að upplýsa neytendur og fyrirtæki betur um réttindi og skyldur í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Starf hópsins hófst í kjölfarið af samkomulagi árið 2019 milli Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands, Neytendasamtakanna, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka iðnaðarins um að gerð yrði gangskör í því að bæta merkingar á matvælum. Þannig á að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif þeirra.

Auðvelda val neytenda

Fjölmargar tillögur komu frá samráðshópnum sem snéru að tæknilausnum, merkingalöggjöf og valkvæðum merkingum. Meðal annars voru listaðar upp lausnir með að nota þjóðfánann á matvæli, matarhandverksmerki, kolefnisspor á umbúðum/máltíðum ásamt búvörumerki. Í tillögu að búvörumerki kom fram að eitt helsta umkvörtunarefni neytenda hérlendis, þegar kemur að merkingum matvæla, sé að erfitt geti verið að átta sig á því hvort búvara sé úr innlendu eða erlendu hráefni. Ekki sé skylt að merkja unnar kjötvörur og tilbúna rétti með upprunalandi og skyldumerkingar á matvælum séu oft í smáu letri á ólíkum stöðum á pakkningum.

Bændasamtökin höfðu á þeim tíma lýst yfir vilja til að eiga og reka sameiginlegt myndmerki fyrir landbúnaðinn sem matvælaframleiðendur hefðu val um að setja framan á umbúðir matvæla úr innlendum búvörum sem innihéldu að lágmarki 75-80% innlend hráefni. Sambærileg merki í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi voru höfð til hliðsjónar. Innleiðing slíks merkis myndi auðvelda upplýst val neytenda tengt uppruna búvara og því ávinningur fyrir neytendur.