Merkið Íslenskt staðfest
Öruggt val fyrir neytendur
Íslenskt staðfest er nýtt upprunamerki fyrir íslenskar matvörur og blóm. Aðeins er heimilt að nota merkið á vörur sem eru framleiddar og pakkað á Íslandi. Merkið mun auðvelda neytendum að velja íslenskt, en til að mega nota merkið þurfa framleiðendur að ábyrgjast að hráefni sé raunverulega íslenskt og framleiðsla hafi farið fram á Íslandi.
Bændasamtök Íslands eiga og reka merkið sem byggir á áratugareynslu af notkun sambærilegra merkja á Norðurlöndunum. Stofnun merkisins er afrakstur áralangs samtals hagaðila og opinberra aðila á innlendum matvörumarkaði.
Markmið
- Auka sýnileika og markaðshlutdeild íslenskra afurða.
- Stuðla að því að íslenskar vörur rati á borð neytenda.
- Tengja neytendur betur við frumframleiðendur og auka verðmæti innlendra afurða.
- Fræða neytendur um kosti íslenskra matvæla og verslunar.
- Festa merkið í sessi sem óumdeilt upprunamerki sem má treysta.
Eftirlit með merkinu
Vottunarstofan Sýni sér um úttektir hjá þeim fyrirtækjum sem kjósa að nota merkið. Ekki má nota merkið nema hafa til þess leyfi sem sótt er um sérstaklega hjá íslenskt staðfest, þar sem gangast þarf undir staðal merkisins og uppfylla opinberar kröfur til sinnar starfsemi.